Stjórnendur N1 hf. gleymdu að færa sjálfsskuldaábyrgð vegna láns upp á 1,4 milljarða króna til móðurfélags síns í ársreikning sinn fyrir árið 2008. Sá reikningur gefur því ekki rétta mynd af ábyrgðum félagsins á þeim tíma.

Í ársreikningnum frá 2008 kemur fram að N1 hafi gengist undir sjálfskuldarábyrgð vegna móðurfélags síns, BNT hf., að fjárhæð 5,2 milljarða króna. Ábyrgðin hafði þá rúmlega tvöfaldast á einu ári vegna hruns íslensku krónunnar.

Lánað þegar félagið var keypt

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1 hf., segir að gleymst hafi að færa ábyrgð á ofangreindu láni í ársreikning 2008. Aðrar hækkanir skýrist síðan af neikvæðum gengishreyfingum. „Þetta var lán sem var tekið árið 2006 þegar félagið var keypt og var þá ekki með sjálfsskuldarábyrgð. Það var síðan endurfjármagnað 2008 með nýju láni og þá var veitt sjálfsskuldarábyrgð. Af því að þetta var sama lánið þá hafa menn gleymt að haka við í ársreikningi 2008.“