Meðal varúðarráðstafana N1 vegna COVID-19 faraldursins eru tíð þrif á snertiflötum, ýmsar ráðstafanir varðandi matvælaafgreiðslu, utanlandsferðir felldar niður og fundarhöld takmörkuð til muna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Snertifletirnir sem um ræðir eru til að mynda posar, hurðir, kælir og í og við salerni. Ráðstafanir varðandi matvælaafgreiðslu fela í sér að sjálfsafgreiðslu á nammibörum hefur verið hætt, sósur fyrir pylsur hafa verið færðar fyrir aftan afgreiðsluborð, salatbarir í sjálfsafgreiðslu hafa verið fjarlægðir, bakkelsi í sjálfsafgreiðslubakaríum er nú pakkað inn, kaffibollar, lok og aðrir fylgihlutir hafa verið færðir fyrir aftan afgreiðslulínu, og hnífapör verða afhent af starfsfólki.

Í höfuðstöðvum félagsins hefur verið tekin upp takmarkandi aðgangsstýring, skammtað er á diska í mötuneyti, hluti starfsmanna vinnur að heiman og þeim tryggður viðeigandi búnaður, vinnusvæði hafa verið afmörkuð, vaktir aðskildar, fundahöld takmörkuð til muna, ferðir erlendis felldar niður og heimsóknum til viðskiptavina fækkað umtalsvert.

Þá eru til staðar viðbragðsáætlanir ef loka þarf einhverjum staðsetningum vegna ástandsins.