Samkvæmt drögum að uppgjöri fyrsta ársfjórðungs þessa árs hjá N1 er EBITDA félagsins 520 milljónir króna samanborið við 374 milljónir króna á sama fjórðungi árið í fyrra. Umferð á þjóðvegum landsins jókst um 14,1% á milli fyrsta ársfjórðungs 2016 og 2017 og skilaði það sér í aukinni sölu á bifreiðaeldsneyti sem jókst um 8,7% í magni á milli tímabila. Enn fremur var þróun á olíuverði félaginu hagstæð á fjórðungnum. Einnig skilaði önnur vörusala afkomu umfram væntingar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu N1 til Kauphallarinnar.

Í ljósi þessa hefur EBITDA spá félagsins verið hækkuð um 100 milljónir króna eða í 3.500 til 3.600 milljónir króna fyrir árið 2017. N1 áréttar þó að rekstur N1 er sveiflukenndur og árstíðabundinn en stærsti hluti EBITDA fellur til á 2. og 3. ársfjórðungi hvers árs.