Gengi bréfa N1 hækkaði um 2,4% í gær í 675 milljón króna viðskiptum. Félagið hefur hækkað um 2,6% það sem af er degi í 241 milljón króna viðskiptum. Samtals er þetta því 5% hækkun á tveimur dögum.

Hæstiréttur staðfesti í gær dóma Héraðsdóms Reykjavíkur um að olíufélögin Skeljungur, Olís og Ker hafi gerst sek um langvarandi alvarlegt samráð á tímabilinu 1996-2001. Háar sektir á keppinauta N1 á eldsneytismarkaði eru þannig endanlega staðfestar, en sektirnar sem lagðar voru á félögin þrjú nema samtals 1,5 milljarði króna.

N1 sendi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar fyrr í dag þar sem tekið er fram að félagið er ekki aðili að samráðsmálinu, enda tók það til starfa árið 2007.