N1 birti ársreikning sinn fyrir árið 2015 í dag. Fram kemur í reikningnum að hagnaður félagsins hafi verið 1.860 milljónir króna á árinu liðna. Það er aukning um 233 milljónir króna milli ára, eða 14% aukning.

EBITDA félagsins var 3 milljarðar króna, en það er aukning frá árinu á undan um 344 milljónir króna, eða ríflega 12%.

Eignir félagsins námu 18,7 milljörðum króna á árinu. Það er lækkun um rúma 4 milljarða króna milli ára, en lækkunin er aðallega í veltufjármunum félagsins - en birgðir og Viðskiptakröfur lækkuðu milli ára.

Af þessum eignum nam eigið fé félagsins 7,7 milljörðum króna, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um lækkaði félagið hlutafé sitt á árinu. Skuldir félagsins drógust saman um 478 milljónir milli ára og eru því 11 milljarðar og 53 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall félagsins er því 41,2%, og lækkar um rúm 8 prósentustig milli ára.

Í ársreikningnum kemur fram að verðhrun í heimsmarkaðsverði hráolíu hafi haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Þá segir einnig að áætlað sé að greiða hluthöfum félagsins arð á árinu 2016. Arðurinn mun vera 1.050 milljónir kóna sem gerir 3 krónur á hvern hlut.