*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 21. febrúar 2018 17:01

N1 hagnast um 2,1 milljarð

N1 seldi eldsneyti fyrir 23,3 milljarða árið 2017 og jókst salan um 2,2% milli ára.

Ritstjórn
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1.
Styrmir Kári

Olíufélagið N1 hagnaðist um 2,1 milljarð króna árið 2017 samanborið við 3,4 milljarða árið áður. Þetta kemur fram ársreikningi N1 samstæðunnar fyrir árið 2017. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 0,4% fyrir birtingu uppgjörsins. 

Sala N1 nam 34,6 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 33,8 milljarða árið áður. Þar af seldi N1 eldsneyti fyrir 23,3 milljarða og aðrar vörur fyrir 11,3 milljarða. Framlegð af vörusölu nam 11,3 milljörðum samanborið við 11,2 milljarða árið áður, en framlegð af eldsneyti minnkaði á meðan framlegð annarra vara jókst. Rekstrartekjur námu alls 11,8 milljörðum og jukust um 1,8% milli ára.

Rekstrarkostnaður N1 nam 8,2 milljörðum króna árið 2017 og jókst um 3,8% milli ára. Launakostnaður nam 4,6 milljörðum og jókst um rúmlega 320 milljónir milli ára. Meðalfjöldi starfsmanna var 545 á árinu. EBITDA að undanskildum kostnaði við kaup á Festi nam 3,6 milljörðum króna og minnkaði um 20 milljónir milli ára. 

Eignir N1 í árslok námu 27,7 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall tæplega 50% samanborið við 49,2%. 

Handbært fé frá rekstri nam 2,4 milljörðum samanborið við 3,5 milljarða árið áður. Fjárfestingar námu 2,3 milljörðum samanborið við 991,7 milljónir árið 2016. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 392,6 milljónir en voru neikvæðar um 2,7 milljarða árið áður. Handbært fé hækkaði þannig um 500,3 milljónir á síðasta ári og nam 2,8 milljörðum í lok desember.

Ekki er lagt til að greiddur verði út arður til hluthafa vegna rekstrarársins 2017.

EBITDA spá N1 fyrir árið 2018 gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 3,5-3,7 milljarðar að undanskildum kostnaði við kaup á Festi.

EBITDA með Festi innanborðs 6,9 milljarðar

Samkeppniseftirlitið hefur til skoðunar fyrirhuguð kaup N1 á öllu hlutafé í Festi hf. en kaupsamningur var undirritaður 3. október 2017. Festi sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja og rekur 27 verslanir undir merkjum Krónunnar, ELKO, Nóatúns, Kjarvals og Kr, en félagið á einnig og rekur Bakkann vöruhótel. Festi á 18 fasteignir sem eru annað hvort í leigu til verslana félagsins eða til þriðja aðila og er heildarstærð fasteignanna um 71.500 fermetrar.

Heildarvelta Festi var rúmir 39 milljarðar króna á rekstrarárinu sem lauk 28. febrúar 2017. Í kaupsamningnum er heildarvirði Festi 37,9 milljarðar króna en endanlegt kaupverð hlutafjár mun ráðast af skuldastöðu félagsins við lok yfirstandandi fjárhagsárs sem er 28. febrúar 2018.

Gera áætlanir yfirstandandi rekstrarárs ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta („EBITDA“) verði um 3.340 milljónir króna og eru 2.125 milljónir vegna rekstrarfélaga Festi en 1.215 milljónir vegna fasteignastarfsemi þess. Heildarvirði félagsins getur tekið breytingum vegna afkomu rekstrarfélaga Festi.

Reynist EBITDA rekstrarfélaganna fyrir rekstrarárið sem lýkur 28. febrúar 2018 hærri en 2.125 milljónir króna skal kaupverð hækka en þó aldrei meira en um 1 milljarð króna, þ.e.a.s. verði EBITDA 2.250 milljónir eða hærri. Reynist hins vegar EBITDA rekstrarfélaganna vera lægri en 2.050 milljónir skal kaupverðið lækka en þó aldrei meira en um 1 milljarð króna, þ.e.a.s. verði EBITDA 1.925 milljónir eða lægri.

Eins og fyrr greinir gera áætlanir ráð fyrir að EBITDA Festi á rekstrarárinu sem lýkur 28. febrúar 2018 verði 3.340 milljónir króna. Miðað við þær forsendur væri EBITDA sameinaðs félags, að undanskildum kostnaði við kaup N1 á Festi, 6.945 milljónir.

Ekki hefur verið tekið tillit til áætlaðra samlegðaráhrifa í framangreindum tölum. Áætluð samlegðaráhrif af sameiningu N1 og Festi eru á bilinu 500 til 600 milljónir króna.

Fjórði ársfjórðungur 

Hagnaður N1 á fjórða ársfjórðungi nam 442,1 milljónum á fjórða ársfjórðungi. Framlegð af vörusölu jókst um 2,3% á fjórðungnum, sem skýrist að mestu af hagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði olíu og auknum umsvifum í bílaþjónustu. Selt magn af bensíni og gasolíu minnkaði um 1,6% milli ára á fjórða ársfjórðungi, en umferð á þjóðvegum landsins jókst um 10,8% milli ára. EBITDA að undanskildum kostnaði við kaup á Festi nam 844 milljónum á ársfjórðungnum borið saman við 675 milljónir árið áður. 

Stikkorð: N1 uppgjör