N1 hagnaðist um 3.378 milljónir á árinu 2016. Árið áður hagnaðist félagið um 1.860 milljónir. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir nam 3.625 milljónir árið 2016 samanborið við 3.012 milljónir á sama ári 2015.

Framlegð af vörusölu jókst um 10,2% á árinu og selt magn af bensíni og gasolíu jókst um 9,5% vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu. Umferðu á þjóðvegum landsins jókst um 13,4% á árinu 2016 samanborið við 5,8% árið 2015.

Á árinu hafði þróun heimsmarkaðsverðs með eldsneyti jákvæð áhrif á afkomu félagsins. Viðsnúningur á virðisrýrnun fasteigna frá 2011 og voru 1.323 m.kr. tekjufærðar í rekstrarreikningi. Endurmat fasteigna 4.850 milljónir fært beint á eigið fé. Eigið fé félagsins nam 12.572 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall 49,1% í lok árs 2016.

Nettó vaxtaberandi skuldir voru samtals 4.775 milljónir í lok árs 2016 samanborið við 3.972 milljónir í lok árs 2015. Meðalfjöldi stöðugilda hjá N1 var 532 á árinu 2016.

„Á árinu 2011 var færð virðisrýrnun á fasteignum félagsins. Á árinu 2016 komu fram vísbendingar um að virðisrýrnunin hefði gengið til baka. Sérfræðingar unnu virðismat á eldneytisstöðvum og öðrum fasteignum félagsins miðað við árslok 2016. Niðurstaða matsins var að virðisrýrnunin væri að fullu gengin til baka og að verðmæti eignanna væri umfram bókfært verð þeirra eftir bakfærslu virðisrýrnunarinnar. Félagið hefur ákveðið að breyta um reikningsskilaaðferð, endurmeta fasteignirnar og færa þær til gangvirðis í samræmi við heimild í alþjóðlegum reikningsskilastaðli. Heildaráhrif breytinganna voru að 1.323 m.kr. voru færðar í rekstrarreikning félagsins á árinu vegna bakfærslu virðisrýrnunar, en 4.850 m.kr. í aðra heildarafkomu vegna endurmats umfram afskrifað kostnaðarverð,“ er tekið fram í tilkynningu frá félaginu.

Áframhaldandi fjölgun ferðamanna

N1 lagði einnig mat á framtíðarhorfur í rekstri fyrirtækisins fyrir þetta ár. Fyrirtækið gerir ráð fyrir því að það verði áframhaldandi fjölgun erlendra ferðamanna á árinu 2017. Einnig segir í tilkynningu frá félaginu að innlendar kostnaðarhækkanir munu hafa áhrif á reksturinn þrátt fyrir lága verðbólgu sem gerir fyrirtækjum erfitt fyrir á samkeppnismörkuðum eins og þeim sem félagið starfar á.

Í tilkynningunni segir jafnframt að órói á olíumörkuðum mun valda sveiflum á framlegð og fjárbindingu og að verkfall sjómanna hafi neikvæð áhrif á rekstur félagsins. EBIDTA spá félagsins fyrir árið 2017 gerir þó ráð fyrir að EBITDA muni verða á bilinu 3.400 til 3.500 milljónum.