N1 hagnaðist um 712 milljónir íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu fyrirtækisins.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 1.104 milljónum króna á fjórðungnum, sem er töluverð bæting frá sama tímabili í fyrra, en þá var EBITDA félagsins um 1.004 milljónir.

Framlegð af vörusölu jókst um 6,3% á fjórðungnum og hefur selt magn af bensíni og gasolíu aukist um 10% milli ára. Selt magn án JET lækkaði um 7,2% milli ára, og má rekja þá lækkun til minni umsvifa í sjávarútvegi og minni sölu til erlendra aðila.

Eigið fé fyrirtækisins var 7.497 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 37,5%. Arðsemi eigin fjár nemur nú 22,2%, ef síðustu sex mánuðir eru skoðaðir.