Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,98% í viðskiptum dagsins. Vísitalan endaði því í 1.774,40 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam tæpum 2,8 milljörðum.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,68% og endaði í 1.227,04 stigum. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam tæpum 7,5 milljörðum.

Mest hækkun hjá N1

Mest hækkun var á gengi bréfa í N1. Þau hækkuðu um 5,14% í 583 milljón króna viðskiptum. Talið er líklegt að þessi mikla hækkun skýrist að hluta vegna tilkynningar sem N1 gaf frá sér í gær þar sem að kom fram að aukning á seldum lítrum á bifreiðaeldsneyti var umfram áætlanir, eins og Viðskiptablaðið greindi áður frá.

Gengi bréfa Haga h.f. hækkaði einnig um 1,63% í 863 milljón króna viðskiptum. Mesta hlutfallslega lækkunin á gengi bréfa í dag var hjá Icelandair en gengi bréfa þeirra lækkaði um 1,60% í tæplega 76 milljón króna viðskiptum.

Af félögum utan úrvalsvísitölunnar þá hækkaði gengi bréfa mest hjá Sjóvá-Almennum tryggingum, en hækkunin nam 1,07% í 241 milljón króna viðskiptum.