N1 hefur fest kaup á rekstri og eignum Hleðslu ehf. Reksturinn sem rekinn er undir nafninu Hlaða hefur verið leiðandi á Íslandi í hleðslustöðvum og hleðslubúnaði fyrir rafbíla og þjónustar félagið bæði heimili, fjölbýlishús og fyrirtæki en félagið hefur sett upp 600 hleðslustöðvar á Íslandi.

Að sögn Hinriks Arnar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra N1 eru kaupin næsta skref í þróun félagsins en eru jafnframt hluti af stefnu þess í að vera leiðandi í þróun orkuskipta á Íslandi.

„Hugsunin hjá N1 með kaupunum er að stíga enn fastar inn á raforkumarkaðinn. Við skynjum þessa þróun sem er að eiga sér stað með auknum fjölda rafbíla og þá kröfu frá markaðnum að einhver taki forystuhlutverkið. Markmið okkar er því að halda áfram að þjónusta viðskiptavini sama hvaða tegund af orku þeir kjósa fyrir bílinn sinn.

Fyrr á árinu keyptum við 15% hlut í Íslenskri orkumiðlun sem selur raforku til fyrirtæka og einstaklinga. Þá er N1 í samstarfi við Orku náttúrunnar á 11 staðsetningum um landið þar sem við vorum leiðandi í að loka hringnum fyrir rafbílaeigendur. Þá munum við opna fjölorkustöð í Skógarlind á fyrri hluta næsta árs þar sem í fyrsta skipti á Íslandi verða fleiri stæði fyrir sölu á raforku en fyrir sölu á jarðefnaeldsneyti  Við erum því að fikra okkur inn á þennan markað og ætlum okkur að vera leiðandi afl í þeim orkuskiptum sem munu eiga sér stað á komandi árum.

Okkar hugsun er að nota okkur söluleiðir til að styrkja þetta félag og taka forystu á þessum markaði. Viðskiptavinir okkar hlaupa á tugum þúsunda þannig við sjáum mikil tækifæri í að samnýta þetta. Það eru því verulega spennandi tímar framundan í þessum efnum.“