Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,71% í dag og endaði í 1.764,86 stigum. Viðskipti á hlutabréfamarkaði námu ríflega 1,6 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,03% og stendur því í 1.368,13 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 2 milljörðum króna.

Mest hækkun var á bréfum fasteignafélagsins Reita en þau hækkuðu um 0,58% í ríflega 168 milljón króna viðskiptum en bréf félagsins stóðu í 86,10 krónum við lokun markaða. Næst mest hækkuðu bréf Eimskipa í 118 milljón króna viðskiptum og stóðu þau því í 233,50 krónum við lok dags.

Mest lækkun var á bréfum N1 en þau lækkuðu um 1,97% í rétt rúmlega 173 milljón króna viðskiptum en lokagengi þeirra var 124,50 krónur. Þá lækkuðu Origo og Hagar næst mest eða um 1,61% hvort um sig. Viðskipti með bréf Haga námu rúmum 57 milljónum króna en þau stóðu í 42,80 krónum við lok dags. Viðskipti með bréf Origo námu 14 milljónum og stóðu bréf félagsins í 24,50 krónum þegar markaðir lokuðu.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,60% í viðskiptum upp á rúma 1,5 milljarða. Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,05% í 1,3 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,03% í 0,2 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,09% í 1,1 milljarðs viðskiptum.