*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 17. apríl 2018 14:29

N1 mun tilkynna á ný um samruna við Festi

N1 dregur tilkynningu á samruna við Festi til baka sama dag og vænta mátti úrskurðar Samkeppniseftirlitsins.

Ritstjórn
Eggert Þór Kristófersson er forstjóri N1.
Aðsend mynd

Rannsókn á samruna N1 og Festi var á lokastigi og ákvörðunar að vænta í dag, en ekki kemur til hennar þar sem N1 hefur nú ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu sína að því er fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni. Hafði verið tilkynnt um samrunann þann 31. október 2017, en nú hefur tilkynningin verið dregin til baka, sama dag og ákvörðunar var að vænta.

N1 hefur upplýst Samkeppniseftirlitið um að félagið hyggist tilkynna aftur um samrunann þar sem félgið hyggist leggja fram tillögur að skilyrðum sem ætlað er að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið telur að stafað gætu af samrunanum.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samrunanum hefur verið umfangsmikil en eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur stofnunin talið að alvarlegar samkeppnishindranir leiddu af samrunanum sem bregðast yrði við, annað hvort með ógildingu samrunans eða skilyrðum sem eyddu umræddum hindrunum.

Samkeppniseftirlitið hafnaði sáttaviðræðum

Hugðist stjórn N1 hefja sáttaviðræður við Samkeppniseftirlitið vegna samrunans en jafnframt lagði félagið fram athugasemdir við frummat eftirlitsins. Tilkynnti félagið um þetta í kauphöll þann 7. mars síðastliðinn.

Að fengnum athugasemdum félagsins við frummat eftirlitsins, sem bárust þann 12. mars, segir Samkeppniseftirlitið hins vegar að ekki væru forsendur til sáttarviðræðna því N1 og Festi hafi lýst sig ósammála öllum efnisþáttum í frummati Samkeppniseftirlitsins, auk þess sem N1 taldi ástæðulaust að lögð yrðu skilyrði á félagið vegna samrunans.

Segja skilyrðin ekki nægileg og staðfestu fyrri niðurstöðu sína

Þau skilyrði sem félagið lagði þó til gátu ekki, að mati Samkeppniseftirlitsins, afstýrt þeim samkeppnishömlum sem lýst hafði verið í andmælaskjali sem eftirlitið hafði sent frá sér.

Í framhaldinu réðist Samkeppniseftirlitið í viðbótarrannsókn á tilteknum þáttum málsins. Frumniðurstaða þeirrar rannsóknar, sem kynnt var samrunaaðilum, staðfesti í meginatriðum frummat eftirlitsins um þær samkeppnishindranir sem samruninn hefði í för með sér.

Segja nýjar tillögur koma of seint

Undir lok hins lögbundna frests, annars vegar þann 9. apríl og hins vegar þann 12. apríl, setti N1 loks fram tillögur að skilyrðum sem félagið taldi að gætu aukið samkeppni og orðið andlag sáttar í málinu.

Gerði Samkeppniseftirlitið N1 grein fyrir því að umræddar tillögur væru of seint fram komnar því ekki væri mögulegt að ráðast í fullnægjandi rannsókn á áhrifum skilyrðanna innan hins lögboðna frests því stofnunin hugðist tilkynna um niðurstöðu sína í dag líkt og áður hafði verið tilkynnt um.

Auk þess væri verulegt álitamál hvort skilyrðin sem N1 lagði til þann 12. apríl væru fullnægjandi til að eyða þeim samkeppnishindrunum sem samruninn hefði í för með sér að mati stofnunarinnar.

Stikkorð: N1 Samkeppniseftirlitið Festi samruni