N1 hefur hafið afhendingar á vörum frá sænsku netversluninni Boozt í samstarfi við Dropp og geta viðskiptavinir Boozt nú nálgast sendingar á öllum þjónustustöðvum N1 um land allt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Við pöntun geta viðskiptavinir valið úr afhendingarstöðum Dropp þegar pantað er í netverslun Boozt og að sama skapi býðst viðskiptavinum að skila vörum frá Boozt á allar þjónustustöðvar N1.

Boozt hóf í byrjun júní á síðasta ári að selja vörur til Íslands. Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Hermann Haraldsson, forstjóri Boozt, að viðtökur Íslendinga hafi farið langt fram úr væntingum fyrirtækisins. Boozt er nú komið með stærri markaðshlutdeild hér á landi en Asos þegar kemur að fataverslun á netinu, samkvæmt greiningu Meniga.

Jón Viðar Stefánsson, forstöðumaður verslunarsviðs N1:

„Við hjá N1 erum virkilega spennt að geta þjónustað viðskiptavini stærstu netverslunar Norðurlanda og komið sendingum til þeirra í gegnum samstarf okkar við Dropp. Það er einnig ánægjulegt að sendingum sem við afhendum á þjónustustöðvum N1 um allt land er sífellt að fjölga og spáum við enn meiri fjölgun eftir að Boozt bætist í hóp þeirra 300 netverslana sem nýta sér okkar afhendingarþjónustu.“

Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp:

„Það hefur verið gaman að sjá samstarfið við N1 halda áfram að þróast en það hófst fyrir rúmlega tveimur síðan. Við erum í skýjunum með að stór netverslun eins og Boozt treysti okkur fyrir því að koma sendingum til viðskiptavina hratt og örugglega. Skilvirk og traust þjónusta skiptir hér sköpum og felst hún meðal annars í því að viðskiptavinir Boozt geta nú skilað pöntunum til okkar á allar N1 stöðvar og við sjáum til þess að vörurnar komist aftur til Svíþjóðar.“