Rekstrarhagnaður N1, sem á og rekur bensínstöðvar Esso, var 1,7 milljarður króna á fyrstu átta mánuðum ársins og ríflega þrefaldaðist á milli ára. Hagnaður félagsins fyrir skatta á þessum tíma nam 875 milljónum króna en var 475 milljónir á sama tíma í fyrra. Velta félagsins nam ríflega 27 milljörðum króna og drógst saman um ríflega 16%.

Kostnaðarverð seldra vara nam  20,3 milljörðum króna en var  25,8 milljarðar á sama tíma í fyrra. Framlegð af vörusölu nam 6,7 milljörðum króna en var 5,6 milljarðar. Rekstrargjöld án afskrifta og leigugjalda var ríflega 4 milljarðar króna sem er mjög svipað og árið á undan.

Afskriftir og leigugjöld voru 1.016 millónir króna en voru 910 milljónir króna árið á undan.   Rekstrarhagnaður var eins og áður segir 1.708 milljónir króna en nam 575 milljónum króna árið á undan.   Fjármunatekjur (fjármagnsgjöld) voru neikvæð um 833 milljónir króna en voru neikvæð um 100 milljónir árið á undan.   Hagnaður fyrir skatta nam 875 milljónum en var 475 milljónir árið á undan.

Þess má geta að N1 birtir upplýsingar úr ársreikningi sínum á tveggja mánaða fresti.