Gengi hlutabréfa N1 hefur hækkað um 4,11% það sem af er degi í 890 milljón króna viðskiptum. Í gær hrundi gengi bréfa félagsins um 11,83% í 717 milljón króna en nú virðist gengi bréfa félagsins að vera að taka við sér að einhverju leyti.

Samkvæmt heimildarmönnum Viðskiptablaðsins á markaði stafaði lækkun á gengi bréfa félagsins meðal annars af því að nokkrir innherjar hjá félaginu hafi selt bréf sín í félaginu á síðastliðnum dögum og mánuðum. Það gæti þýtt að menn séu að tengja þessar sölur sem merki þess að stjórnendurnir séu hræddir við innreið Costco á eldsneytismarkaðinn.

Gengi hlutabréfa Nýherja hefur einnig hækkað umtalsvert í dag eða um 9,92%, þó í talsvert minni viðskiptum, eða 115 milljón króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa Icelandair hefur hins vegar lækkað um 4,05% það sem af er degi.