Kauphöllin hefur samþykkt umsóknar stjórnar olíuverslunar N1 um töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði. Samþykkið er háð því að félagið uppfylli skilyrði reglna um útgefendur um dreifingu hlutafjár fyrir fyrsta viðskiptadag. Gangi allt eftir verða hlutabréf N1 tekin til viðskipta 19. desember næstkomandi.

Fram hefur komið að bréf N1 verði boðin út dagana 6. - 9. desember næstkomandi. Framtakssjóður Íslands og Íslandsbanki ætla þar að selja 25% hlut í félaginu. Gengi hlutabréfa verður á bilinu 13,5 til 15,3 krónur á hlut. Miðað við það er markaðsverðmæti N1 á bilinu 13,5-15,3 milljarða króna.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll en Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka annast sölu og markaðssetningu á útboðinu.