N1 er nú að hefja umtalsverðar endurbætur á veitingaskálanum Hlíðarenda á Hvolsvelli.

„Það helgast af tvennu. Annars vegar sprakk staðurinn utan af starfseminni á síðastliðnu sumri og við gátum hreinlega ekki tekið við öllum þeim gestum sem þangað vildu koma yfir hásumartímann. Síðan verður Landeyjahöfn opnuð og ferðamönnum sem þar fara í gegn mun fjölga töluvert,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1 í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við sjáum því ástæðu til að fjárfesta þarna í auknum og meiri viðbúnaði. Við erum með innanhússpár hjá okkur sem gera ráð fyrir í kringum 20% umferðaraukningu að meðaltali með tilkomu hafnarinnar. Við höfum unnið náið með Suðurverki við að koma upp búnaði á svæðinu, en fyrirtækið er stór viðskiptavinur okkar. Stækkunin er síðan næsta skrefið þannig að við stöndum klár fyrir fjölgun viðskiptavina. Við fjölgum um 60 sæti og bætum verulega við verslunarrýmið.“