Tap N1 hf. nam á síðasta ári um 1,1 milljarði króna eftir skatta samanborið við 860,9 milljóna króna hagnað árið áður.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en ársreikningur félagsins hefur verið staðfestur af stjórn félagsins og forstjóra.

Veltufé frá rekstri nam 1,2 milljörðum króna sem er svipað og árið áður en eigið fé félagsins var tæpir 6,4 milljarðar við síðustu áramót samanborið við rúmlega 5,3 milljarða árið áður.

Í tilkynningunni kemur fram að rekstartekjur félagsins námu tæptum 43,8 milljörðum króna samanborið við 30,5 milljarða árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir og leigugjöld nemur 3,4 milljörðum króna samanborið við 2,3 milljarða króna árið áður.

Þá kemur fram að bókfært verð eigna félagsins nam við áramót um 25,3 milljörðum króna samanborið við tæpan 21 milljarð árið 2007. Fastafjármunir hækka um tæpa 4,3 milljarða króna og nema um 12,26 milljörðum króna í lok síðasta árs.

Í lok ársins námu heildarskuldir og skuldbindingar félagsins rúmum 18,9 milljörðum króna og þar af námu langtímaskuldir tæpum 8,8 milljörðum króna.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að félagið telur rekstrarhorfur árið 2009 vera áfram erfiðar vegna óstöðugleika í efnahagsmálum

„Kjarnastarfsemi félagsins hefur gengið vel miðað við aðstæður það sem af er árinu 2009 en áfram má búast við erfiðu rekstrarumhverfi,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að vegna ástands efnahagsmála hefur stjórn N1 ákveðið að auka upplýsingagjöf til fjárfesta.  Rekstraryfirlit verður birt á 2ja mánaða fresti.