N1 hagnaðist um 1,6 milljarð á síðasta ári sem er aukning um tæpan milljarð. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 2,7 milljörðum samanborið við 1,8 árið 2013. Framlegð af vörusölu jókst um 5,2% á árinu en þróun heimsmarkaðsverðs á olíu undir lok ársins hafði neikvæð áhrif á afkomuna, segir í tilkynningu frá félaginu.

Eigið fé félagsins var 11,3 milljarðar í lok ársins og eiginfjárhlutfall 49,4%. Arðsemi eigin fjár var 12,3% en var árið 2013 4,5%. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru tæpir tveir milljarðar í árslok 2014 en voru 910 milljónir í lok árs 2013.

Stjórn félagsins leggur til að arður að fjárhæð 840 milljónir króna verði greiddur til hluthafa á árinu 2015. Við aðalfund verður lagt til að hlutafé verði lækkað um 230 milljónir króna að nafnverði og hluthöfum greiddar út 2.960 milljónir króna þegar fyrir liggur samþykki hluthafafundar og opinberra aðila.