*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 11. janúar 2021 18:03

N1 vildi Allrahanda í þrot

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um áframhaldandi heimild Allahanda GL til greiðsluskjóls.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um áframhaldandi heimild Allahanda GL til greiðsluskjóls. Einn kröfuhafi, N1 ehf., hafði talið að skilyrði fyrir áframhaldandi greiðsluskjóli væru ekki uppfyllt og rétt væri að félagið færi í þrot.

Í júní á þessu ári óskaði Allrahanda eftir fjárhagslegri endurskipulagningu og var fallist á hana með úrskurði í lok mánaðarins. Síðar meir var óskað eftir því að frekari heimild yrði veitt til sex mánaða, frá og með 30. september 2020. N1 lagðist gegn þeirri beiðni.

Í greinargerð Allrahanda, sem rekur afþreyingarferðir undir merkjum Gray Line, kemur fram að árið 2019 hafi tekjur félagsins verið rúmir tveir milljarðar króna. Tekjur höfðu fallið all mikið frá árinu 2017 og félagið því þegar hafið endurskipulagningu áður en Covid skall á. Eftir að landið lokaðist hafi tekjurnar hins vegar fallið um 99% og verið nær engar. Til að mynda hafi heildartekjur á öðrum ársfjórðungi verið rétt rúmar ellefu milljónir króna.

Peningaeignir, innistæður, verðbréf og viðskiptakröfur Allrahanda voru metnar á tæpar 450 milljónir króna en skuldir 1,9 milljarðar króna. Þar af væru afborganir næstu tveggja ára áætlaðar um 700 milljónir króna. Tap ársins 2019 nam 403 milljónum króna. Félagið hafi nýtt sér úrræði stjórnvalda og enginn starfsmaður sé eftir í því auk þess að unnið sé að sölu eigna.

Töldu N1 ásælast fasteign

Á fundi með kröfuhöfum í ágúst hafi komið fram að í byrjun ágúst hafi eignir félagsins verið ríflega tveir milljarðar króna, skuldir 1,9 milljarðar og eigið fé 108 milljónir króna. N1 gerði aftur á móti athugasemdir við þá útreikninga og taldi að eigið fé félagsins hafi verið neikvætt þegar beiðni um fjárhagslega endurskipulagningu var lögð fram. Þá hafi Akur fjárfestingar slhf., eigandi tæplega helming hlutafjár í Allrahanda, fært niður í bókum sínum eignarhluta í félaginu.

Fyrir dómi byggði Allrahanda á því að félagið uppfyllti greinilega skilyrði til fjárhagslegrar endurskipulagningar og að það hafi nú þegar náð nokkrum árangri í að koma rekstrinum á réttan kjöl. Tölur fyrir fyrstu tvo mánuði ársins 2020 sýni að afkoman hafi verið jákvæð um 60 milljónir króna á þeiim tíma. Covid hefði aftur á móti sett strik í reikninginn.

„[Allrahanda] byggir á því að raunveruleg ástæða þess að [N1] hafni kröfu [félagsins] sé sú að [N1] hafi haft áhuga á því að eignast fasteign [félagsins] við Klettagarða 4 í Reykjavík. Þær verðhugmyndir sem [N1] hafi lagt fram hafi verið með öllu óásættanlegar, m.a. í ljósi verðmats á eigninni sem [Allrahanda] hafi aflað sér frá fasteignasala […]. Tilgangurinn sé augljóslega sá að freista þess að komast yfir fasteign félagsins að Klettagörðum 4 á hrakvirði við þrot félagsins, þvert á hagsmuni allra almennra kröfuhafa, og í raun og veru einnig [N1],“ segir í málsástæðukafla Allrahanda.

Mátu greiðsluskjól tilgangslaust

N1 byggði aftur á móti á því að Covid og aðgerðir stjórnvalda hafi í reynd bjargað Allrahanda frá gjaldþroti. Félagið hefði verið í verulegum vanskilum áður en faraldurinn skall á og greiðsluskjól yrði aðeins til að tefja hið óumflýjanlega.

Máli sínu til stuðnings benti N1 á að mögulegt væri að upplýsingar frá skuldaranum væru vísvitandi rangar eða villandi. Verðmæti hlutabréfa í eigu þess væri ofmetið, hið sama mætti segja um verðmæti viðskiptakrafna og 998 milljón króna skuldir félagsins, sem væru í erlendri mynt, tæki ekki mið af gengisþróun síðasta árs. Ef það væri allt tekið með í reikninginn hefði efnahagsreikningur félagsins sýnt neikvætt 300 milljóna eigið fé síðasta júní og neikvæðar 610 milljónir í september.

Í úrskurði héraðsdóms kom fram að undanfarna þrjá áratugi hefði Allrahanda byggt upp vörumerki sitt og viðskiptasambönd á erlendri grund. Lagabreytingum um greiðsluskjól hefði meðal annars verið ætlað að tryggja að slík verðmæti töpuðust ekki en líklegt væri að svo myndi fara kæmi til gjaldþrotaskipta.

„Í skýrslu stjórnar og framangreindri skýringu 17 [í ársreikningi ársins 2019] kemur fram að sú óvissa sem tengist efnahagslegum áhrifum Covid-19 faraldursins hafi haft mikil áhrif á rekstrarhæfi félagsins. Þar er tekið fram að frá og með marsmánuði hafi rekstur félagsins verið í uppnámi og það nýtt sér þau sértæku úrræði sem í boði væru auk þess sem eignir hefðu verið seldar til að standa straum af rekstrarkostnaði. Hefði félagið enn fremur fengið heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Fram kom að rekstrarhæfi félagsins til framtíðar ylti á því hvort tækist að endurskipuleggja reksturinn,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur töldu að skilyrði fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu væru uppfyllt og að ekkert lægi fyrir um að sú vinna myndi reynast tilgangslaus. Kröfu N1 var því hafnað.

Stikkorð: Allrahanda N1 Gray Line