Max Tayenthat, einn af stofnendum þýska netbankans N26 segir að bankinn hafi lagt of mikla áherslu á að hefja starfsemi í sem flestum ríkjum beggja vegna Atlantsála á undanförnum árum.

Tayenthal segir í viðtali við breska blaðið Financial Times að meðan að bankinn stækkaði markaðsvæði sitt hafi stjórnendur hans sofnað á verðinum þegar kom að þróun stafrænna lausna sem gerir viðskiptavinum kleift að kaupa og selja rafmyntir og hlutabréf.

N26 er einn þeirra stafrænu banka sem hafa sótt í sig veðrið á undanförnum árum í krafti fjártæknibylgjunnar sem skekið hefur fjármálaheiminn. Hann er eitt verðmætasta fjártæknifyrirtæki Evrópu um þessar mundir.  Bankinn hefur verið starfandi frá árinu 2015 og hóf hann starfsemi hér á landi árið 2018. Hann starfar nú í 24 ríkjum. Bankinn býður viðskiptavinum sínum upp á veltureikninga. Þannig geta íslenskir viðskiptavinir bankans verið með evrureikninga og kort frá bankanum.

Tayenthat viðurkennir í viðtalinu að N26 hafi lagt of mikla áherslu á að fjölga markaðssvæðum. Bankinn er nú að hætta starfsemi í Bandaríkjunum og á sama tíma hefur hann verið undir smásjánni hjá evrópskum eftirlitsaðilum. Þannig hefur þýska fjármálaeftirlitið verið með N26 til skoðunar að undanförnu vegna gruns um að brotalamir þegar kemur að því að framfylgja lögum og reglum um eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hefur þýska fjármálaeftirlitið þannig takmarkað hversu marga viðskiptavini N26 getur tekið við í hverjum mánuði við 50 þúsund. Þrátt fyrir það er stefnt að skráningu bankans á hlutabréfamarkað fyrir lok þessa árs.