Í aðgerðunum lögregluyfirvalda á Íslandi, Póllandi og Hollandi í desember var lagt hald á fasteignir, bíla, fjármuni í bönkum og hlutabéf sem metin eru á allt að 200 milljónir króna auk fíkniefna sem metin eru á allt að 400 milljónir króna.

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í október kemur fram að glæpahópar sem búi yfir töluverðum fjárhagslegum styrk stundi peningaþvætti hér á landi. Meðal annars með því að fjárfesta í fasteignum og fyrirtækjum fyrir ágóða af fíkniefnasölu.

„Skipulögð brotastarfsemi felst í að framleiða einhver verðmæti og ef þau verða til í ólöglegri starfsemi þarf að þvætta féð. Við höfum talið að það sé ákveðin hætta og höfum rökstuddar grunsemdir fyrir því að ávinningur af ólögmætri starfsemi hafi farið inn í lögmæta starfsemi,” segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Grímur vill ekki áætla hver umsvif peningaþvættis geti verið hér á landi. Grímur bendir hins vegar á að fulltrúi Europol sem hafi verið hér á landi vegna lögregluaðgerðanna í desember hafi sagt að Europol áætli að lögregluyfirvöld leggi hald á um 2,2% af ólögmætum ávinningi og geri um 1,1% upptækt. „Ég þori ekki að segja til um hlutföll en bendi á þessar tölur,“ segir Grímur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .