Stjórn Icelandair Group segir í tilkynningu að ólíklegt sé að öll skilyrði fyrir kaupum félagsins á Wow air verði uppfyllt fyrir hluthafafund sem boðaður hefur verið á föstudag, 30. nóvember næstkomandi.


Í tilkynningunni segir að Icelandair vinna áfram að því að ljúka kaupunum og viðræður standi yfir milli samningsaðila um framgang málsins. Meðal fyrirvara sem sett voru um kaup Icelandair á Wow air voru niðurstaða áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins auk samþykki hluthafa Icelandair.

Fréttatilkynningin kemur í kjölfar þess að viðskipti voru stöðvuð með bréf félagsins í kauphöllinni í morgun að beiðni FME. Síðan hafa orðið töluverðar lækkanir á bréfum í öðrum félögum . Í frétt á vef FME segir að viðskiptin hafi verið stöðvuð til að vernda jafnræði milli fjárfesta

Tilkynningin nú er í samræmi við umfjöllun Viðskiptablaðsins þess efnis að hluthafar í Icelandair hafi talið líkur á að hluthafafundinum yrði frestað þar sem ekki tækist að svara öllum þeim atriðum sem óvissa væri um fyrir hluthafafundinn á föstudaginn.