*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 28. mars 2015 17:10

Ná ekki utan um fjölda útboða

Ekki eru til upplýsingar um það hversu stór hluti af innkaupum ríkisins fer fram í gegnum útboð.

Kári Finnsson
Haraldur Guðjónsson

Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um hversu stór hluti af innkaupum ríkisins fer fram í gegnum útboð. Þetta staðfestir Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, í samtali við Viðskiptablaðið. Halldór vann náið með starfshópi sem fjármála og efnahagsráðherra skipaði í fyrravor en sá hópur skilaði í síðustu viku skýrslu um tillögur til að auka skilvirkni í opinberum innkaupum. Þar kom m.a. fram að hægt er að spara 2-4 milljarða króna á ári í innkaupum ríkisins með því að leggja áherslu á sameiginleg innkaup, örútboð og skuldbindandi viðskipti við færri birgja.

Heildarinnkaup ríkisins eru um 142 milljarðar króna á ári en þar af kaupir ríkið vöru og þjónustu fyrir um 88 milljarða. Í tillögunum segir að ríkið hafi ekki náð að nýta sér að fullu þau tæki sem það býr yfir til að ná fram hagkvæmum innkaupum. Þá hefur ríkið takmarkaðar upplýsingar um innkaup sín í mörgum vöruflokkum og litla yfirsýn á innkaupsverði og hagræðingartækifærum. Í því sambandi er nefnt að til þess að ríkið fái upplýsingar um innkaup sín í tilteknum vöruflokki þarf að hafa samband við öll ráðuneyti og stofnanir, eða alls 200 aðila.

Of mikil vinna að afla upplýsinga

Spurður að því hversu stór hluti af innkaupum ríkisins fer í gegnum útboð segir Halldór að skortur á slíkum upplýsingum sé einmitt eitt af þeim vandamálum sem Ríkiskaup standa frammi fyrir. „Við höfum unnið hér í verkefni í nokkra mánuði til þess að reyna að ná utan um þetta. Vandinn er að við erum ekki með nógu góðar miðlægar skráningar. Við höfum verið að reyna að meta þetta en það er gríðarlega mikil vinna vegna þess að við þurfum að sækja upplýsingar til svo margra stofnana. Það er nánast ógerningur að fá nákvæma tölu um það hver er tryggð við lög um opinber innkaup. Það er of mikil vinna miðað við það hvernig upplýsingarnar eru skráðar í dag,“ segir Halldór. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð