Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins komust í nótt að samkomulagi um að setja á stofn nýtt eftirlits- og regluverk fyrir evrópska banka. Evrópski seðlabankinn mun sinna þessu eftirliti, en um 200 af stærstu bönkum evrusvæðisins munu þurfa að lúta því.

Í frétt BBC segir að með samkomulaginu sé verið að flytja umtalsvert vald frá aðildarríkjunum til Evrópusambandsins. Seðlabankinn mun hafa vald til að grípa inn í banka og jafnvel loka þeim fylgi þeir ekki reglunum og þá opna reglurnar á að björgunarsjóður ESB verði notaður til að styðja við banka í vandræðum.

Litið er á regluverkið sem fyrsta skref í áttina að samevrópsku bankakerfi, en í frétt BBC segir að slík sameining bankakerfanna myndi kalla á breytingar á stjórnarskrá ESB. Slíkar breytingar hafa gjarnan verið óvinsælar og tekið langan tíma að koma í gegn. Angela Merkel, kanslari Þýskalands er t.d. sögð vilja fresta sameiningu, a.m.k. fram yfir kosningar í Þýskalandi næsta haust.