Sjómannasamband Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), hafa náð samkomulagi um fiskverð, samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins (RÚV). Deilan um fiskverð hefur verið einn stærsti hnúturinn í kjaraviðræðum milli samtakanna og því er líklegt að viðræður séu þá á réttri braut.

Fundur milli aðilanna tveggja hófst klukkan tíu hjá Ríkissáttasemjara og nú reyna aðilarnir að leysa úr þeim málum sem eftir eru. Haft er eftir Valmundi Valmundssyni, formanni Sjómannasambandsins, að þó að samkomulag um fiskverð hafi náðst þá beri nokkuð á milli. Hann segir þó fiskverðsmálið stórt.

Ef að ekki næst að semja þá skellur á verkfall 3.500 sjómanna annað kvöld sem yrði fyrsta verkfall stéttarinnar í 15 ár.