Samkomulag hefur náðst vegna fyrirhugaðra riftunarmála sem stóð til að höfða gegn Andra Má Ingólfssyni. Skiptafundur í þrotabúi flugfélagsins Primera air var haldinn síðastliðinn föstudag. Efni fundarins var afstaða kröfuhafa til samnings um að ljúka þeim ágreiningsmálum sem kynnt voru á skiptafundi í febrúar. Samkvæmt heimildum Viöskiptablaðsins er nú ljóst að ekkert verður að fyrirhuguðum riftunarmálum sem stóð til að höfða gegn Andra Má, sem var eigandi félagsins þangað til það fór í þrot.

Flugfélagið Primera air varð gjaldþrota í október á síðasta ári og námu lýstar kröfur í þrotabú félagsins um 10 milljörðum króna. Arion banki var einn af stærstu kröfuhöfunum í búið og í kjölfar gjaldþrotsins sendi bankinn út tilkynningu þar sem fram kom að afkoma bankans yrði 1,3 til 1,8 milljörðum verri vegna þessa.

Eiríkur Elís Þorláksson, skiptastjóra þrotabús Primera air, segir að ekki sé enn ljóst hversu mikið fáist upp í lýstar kröfur. Hann segir jafnframt að nokkur ágreiningsmál eigi eftir að fara fyrir dóm áður en að skiptum í félaginu ljúki, þar af er eitt mál vegna launamála. Eiríkur vildi ekki tjá sig um hvort samkomulag hafi náðst á framangreindum skiptafundi.