Fyrirtæki geta nýtt sér snjallsímabyltinguna með ýmsum hætti til markaðsstarfs. Bæði er það gert með því að besta vefsíður fyrirtækja fyrir slíka síma, en einnig með því að nýta sér möguleikana sem felast í því að fá auglýsingar birtar í smáforritum í símunum.

Andri Már Kristinsson, framkvæmdastjóri Kansas, segir að snjallsímar séu nú þegar mikilvægur miðill fyrir markaðssetningu og auglýsingar og að mikilvægi þeirra eigi bara eftir að aukast. „Nú þegar eru um 32% Íslendinga með snjallsíma af einhverju tagi og við þessa tölu bætist svo að 20% Íslendinga eiga spjaldtölvur. Íslensk fyrirtæki mættu hins vegar taka Google sér til fyrirmyndar, en þar er reglan sú að ekkert nýtt fer í loftið fyrr en búið er að ganga úr skugga um að það virki í snjallsíma.“