Satya Nadella, forstjóri Microsoft, hefur fengið launapakka frá fyrirtækinu upp á 84,3 milljónir bandaríkjadollara, sem jafngildir um 10 milljörðum íslenskra króna.

Launapakkinn samanstendur aðallega af kauprétti á hlutabréfum í fyrirtækinu og munu greiðslur til Nadella dreifast á nokkurra ára tímabil. Þessar fréttir berast nú innan við mánuði eftir að Nadella sagði á ráðstefnu að konur ættu að „trúa á kerfið“ þegar kæmi að launahækkunum. Ekki fer sögum af því hvort Nadella hafi sjálfur falast eftir launapakkanum, eða hvort fyrirtækið sjálft hafi átt að honum frumkvæði.

Launapakkinn gerir Nadella að einum tekjuhæsta manni á heimsvísu sem starfar við tækniiðnað.