*

sunnudagur, 20. júní 2021
Fólk 3. júní 2021 10:22

Nadine Yaghi til Play

Nadine er nýr samskiptastjóri Play og mun sjá um verkefni á sviði almannatengsla og bera ábyrgð á því að móta samskiptastefnu fyrirtækisins.

Ritstjórn
Nadine Guðrún Yaghi er nýr samskiptastjóri flugfélagsins Play

Lögfræðingurinn Nadine Guðrún Yaghi hefur verið ráðin samskiptastjóri flugfélagsins Play. Nadine mun leiða og sjá um verkefni á sviði almannatengsla og bera ábyrgð á því að móta samskiptastefnu fyrirtækisins. Hún mun sjá um samskipti við fjölmiðla og almannatengslastofur, bæði hér á landi og erlendis. Auk þess mun hún koma að verkefnum tengdum fjárfestatengslum og markaðsherferðum félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play.

„Það er mikill happafengur að fá Nadine í Play-teymið á þessum spennandi tímapunkti," segir Birgir Jónsson, forstjóri Play. „Hlutverk hennar verður margþætt. Hún mun stýra samtali Play við íslenska markaðinn, sem og á mörkuðum erlendis. Play er alþjóðlegt fyrirtæki og megnið af markaðsstarfi félagsins fer fram á erlendum mörkuðum þar sem fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að auka vitund almennings á Play sem flugfélagi og Íslandi sem áfangastaðar. 

Þá verður Play skráð á markað á næstu vikum og þar mun Nadine koma sterk inn sem lögfræðingur enda þarf að gæta að því að upplýsingagjöf til fjárfesta sé öflug og fylgi öllum þeim reglum sem skráðum félögum eru sett. Ég býð Nadine velkomna til starfa og hlakka mikið til að vinna með henni."

Nadine er með meistaragráðu í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar síðastliðin fimm ár og þar áður sem blaðamaður á Fréttablaðinu. Þá hefur hún verið umsjónarmaður fréttaskýringaþáttarins Kompás síðastliðin tvö ár. Hún hefur tvisvar hlotið Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjallanir sínar.