Mikil óvissa ríkir með frekari útgáfu Fréttatímans á meðan verið er að endurskipuleggja rekstur þess. Blaðið var prentað í gær en ekkert blað kemur út á morgun, að því er kemur fram í frétt Mbl.is.

Tíu starfsmenn blaðsins hafa ekki fengið greidd laun fyrir síðasta mánuð og hafa starfsmennirnir ekki náð í Gunnar Smára Egilsson, ritstjóra, útgefanda og stærsta eigenda útgáfufélags Fréttatímans. Gunnar Smári hefur nú vikið frá til að liðka fyrir endurskipulagningu blaðsins.

„Við reyndum ítrekað að ná í útgefanda blaðsins í vikunni og boðuðum hann á fund sem hann varð ekki við. Það skýtur skökku við þegar skipstjórinn hleypur frá á ögurstundu, lætur sig hverfa og virðir ekki samstarfsfólk viðlits þegar það hefur ekki fengið greidd laun. Á sama tíma sá hann sér fært að ræða við fjölmiðla um stofnun nýs stjórnmálaflokks sem hyggist berjast fyrir völdum og hagsmunum launafólks í landinu,“ sagði Þóra Tómasdóttir, annar ritstjóra í samtali við Mbl.is.