Andstæðir pólar í bandarísku öldungadeildinni á Bandaríkjaþingi náðu ekki saman um fjárlögin í gær. Málið steytti á heilbrigðisáætlun sem kennd hefur verið við forsetann Barack Obama. Annað eins hefur ekki gerst í um 17 ár eða frá því árið 1996. Þetta þýddi m.a. að á miðnætti í gær lokuðu ýmsar stofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera og starfsmenn sendir heim í launalaust leyfi þar til leyst verður úr hnútnum.

Fram kom á VB.is í gær að á meðal þeirra stofnana ríkisins sem loka eru fjölmörg söfn í Washington. Þar á meðal eru Smithsonian-safnið, Helfararsafnið, bandaríska listasafnið í borginni og dýragarðurinn.

Síðast gerðist þetta í janúar árið 1996 þegar stofnanir og söfn voru lokuð í 21 dag. Að þeim tíma loknum náðist sátt um fjárlögin og gat starfsfólk snúið aftur til sinna verka.

Ekki er að sjá að þessar hræringar hafi haft afgerandi áhrif á hlutabréfamarkaði um heim allan. Nikkei-vísitalan í Japan hækkaði um 0,2% á sama tíma og Hang Seng-vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,5%. Þá hefur FTSE-vísitalan í kauphöllinni í London sveiflast beggja vegna við núllið frá því viðskipti hófust. DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur frá byrjun dags hækkað um rétt rúm 0,6% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur hækkað um 0,77%