Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Veiðigjaldanefnd hefur ekki getað sinnt starfi sínu sem skyldi“ segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis. Nefndin fundaði í morgun með fulltrúum Hagstofunnar, ríkisskattstjóra og fleirum um lög um sérstakt veiðigjald. Hann segir málið flókið, fyrri ríkisstjórn hafa samþykkt lög sem ekki hafi verið hægt að framkvæma og því þurft að setja á lög til bráðabirgða eigi að leggja á sérstök veiðigjöld fyrir haustið.

„Málið er flóknara en það sýnist,“ segir hann í samtali við vb.is og bendir á að sérstakur tæknihópur frá sömu aðilum og funduðu með nefndnni í morgun auk Fiskistofu hafi unnið á vegum atvinnu-og nýsköpunarráðuneytisins í vor eftir að lögin um veiðigjöldin voru sett. Hann hafi ekki komist að niðurstöðu um það hvernig hægt væri að leggja á sérstakt veiðigjald með einföldum hætti. „Þess vegna er málið í þeirri stöðu að engin einföld og augljós lausn er til að nálgast álagningu sérstakra veiðigjalda.“

Hann heldur áfram:

„Því hefur reyndar verið haldið fram að þetta sé eins ogað smella fingri. En þetta sést kannski best á því að tæknihópurinn sem starfaði um nokkurra vikna skeið komst ekki að niðurstöðu að menn sæju sér fært að fara með fyrir þingið mál af þessum toga. Þess vegna verður þessi vinna að fara fram núna.“