Eftir að ljóst var að meirihlutinn í Reykjavík var fallinn í kosningunum laugardaginn 26. maí síðastliðinn hófust viðræður meirihlutaflokkanna við Viðreisn sem nú hafa skilað árangri.

Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar hafa myndað meirihlutann í Reykjavík síðustu fjögur árin, en Björt framtíð bauð ekki fram í þetta sinn. Það gerði hins vegar fyrrum samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn, Viðreisn, en flokkarnir tveir fóru til að mynda saman fram í Kópavogi.

Með því að bæta tveimur borgarfulltrúum Viðreisnar við samanlagt 10 borgarfulltrúa meirihlutaflokkanna þriggja sem eftir voru gátu flokkarnir myndað meirihluta í borginni með 12 af 23 borgarfulltrúum.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Líf Magneudóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna og núverandi forseta borgarstjórnar hafa flokkarnir náð samkomulagi um málefni, verkaskiptingu og stjórn borgarinnar næsta kjörtímabilið.

Mun niðurstaða samkomulagsins verða kynnt við Breiðholtslaug klukkan 10:30 í dag.