Atvinnumarkaðurinn er líflegur og næg atvinna er í boði fyrir bæði kynin í Ísafjarðarbæ. Leitað er að fólki til að fylla að minnsta kosti sextán stöður í bæjarfélaginu.

Í frétt Vísis um málið segir að mikil fólksfækkun hafi átt sér stað á Ísafirði á síðasta áratugi. Hins vegar bendi margt til þess að fólksfækkunin sé að snúast við með örum vexti í atvinnulífinu. Íbúar eru nú um 3.600 talsins.

Haft er eftir Gísla Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, að fiskeldi sé í örum vexti auk þess sem miklir möguleikar séu í ferðaþjónustunni. Hann hvetur fólk, til dæmis af höfuðborgarsvæðinu, til að flytja til Ísafjarðar og ráða sig til starfa.

Þá telur hann upp sextán fjölbreyttar stöður sem reynt er að fylla í bæjarfélaginu. Stöðurnar sem um ræðir eru m.a. blaðamaður á Bæjarins besta, lyfjafræðingur hjá Lyfju, framkvæmdastjóri hjá Vesturferðum auk ýmissa starfa hjá sveitarfélaginu.