Bjarki Brynjarsson forstjóri Marorku telur að nægt fé sé til á Íslandi til að fjármagna starfsemi sprotafyrirtækja hérlendis. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins bendir hann þó á að þegar þau ætli sér að vaxa erlendis þurfi að kosta uppbygginguna í erlendum gjaldmiðli.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í sjónvarpsfréttum í gær að erlend fjárfesting hefði þann galla umfram innlenda að hún líktist erlendri lántöku. Erlendir fjárfestar vildu ná meiru út, með vöxtum, en fjárfest hefði verið fyrir. Engu að síður væri erlend fjárfesting æskileg í bland við innlenda.

„Ég held að það séu í sjálfu sér nægilegir fjármunir á Íslandi til að kosta innlendan kostnað og þannig séu sprotafyrirtæki ekki háð erlendri fjárfestingu í þeim skilningi hvað innlendan kostnað varðar. En þegar kemur að því að þau vaxi á erlendum grunni þá þurfa að kosta uppbyggingu í erlendum gjaldmiðli þá þurfa þau náttúrulegan erlendan gjaldmiðil til að gera það. Þannig að þetta eru svona tvær hliðar á teningnum,“ segir Bjarki.