Prentsmiðja Viðskiptablaðsins
Prentsmiðja Viðskiptablaðsins
© BIG (VB MYND/BIG)

Aðeins 365 miðlar og Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, Eiðfaxa og Fiskifrétta, skiluðu hagnaði af fjölmiðla- og útgáfufyrirtækjum hér á landi í fyrra af þeim sjö sem hafa skilað uppgjöri fyrir síðasta ár. Fram kemur um málið í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, að Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, RÚV, Skjáreinn, DV og Fréttatíminn voru rekin með tapi.

Hagnaður 365 miðla, sem á m.a. Fréttablaðið, Stöð 2, Bylgjuna og fleiri fjölmiðla, hagnaðist um 305 milljónir króna en Myllusetur um tæpa 5,6 milljónir.

Skjáreinn tapaði hins vegar tæpum 165 milljónum króna, RÚV skilaði tapi upp á 85,4 milljónir og DV 65,2 milljónum króna. Í Markaðnum segir að Skjáreinn og DV hafi verið með neikvæða eiginfjárstöðu í lok siðasta árs.

Í Markaðnum er jafnframt fjallað um það þegar bankar leggja mat á lánshæfi fyrirtækja. Þar er gjarnan horft til kennitölu sem fengin er út með því að deila rekstrarhagnaði án afskrifta (EBITDA) í vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé. Hlutfallið gefur fjárfestum, eða lánveitendum, hugmynd um hversu langan tíma fyrirtæki væri að greiða upp skuldir sínar, án til- lits til vaxta, skatta, afskrifta og rýrnunar.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að Myllusetur er eina fyrirtækið sem sérfræðingar í fyrirtækjarekstri og greiningu ársreikninga telja hæft til lántöku. Þar er skulda/EBITDA-hlutfallið 2,9. Rétt við mörkin er svo 365-samstæðan með hlutfall upp á 3,7. Sé þessi mælistika hins vegar lögð á sam- stæðu Árvakurs/Morgunblaðið er hlutfallið 9,4 ár og 9,2 ár hjá RÚV.