Afþreyingarfyrirtækið Walt Disney hefur ákveðið að gefa meira en 125.000 starfsmönnum sínum 1.000 dali í bónus. Um er að ræða nær alla starfsmenn fyrirtækisins fyrir utan æðstu stjórnendur þess.

Disney mun auk þess setja 50 milljónir dala, sem nemur um 5,1 milljarði króna á gengi dagsins í dag, í fræðslusjóð sem er ætlað að endurgreiða starfsmönnum námskostnað. Þá mun félagið leggja allt að 25 milljónum dala árlega í sjóðinn til framtíðar.

Fyrirtækið segir ástæðuna vera breytingar á skattalögum sem lækka skatta á fyrirtæki. Heildarkostnaður af aðgerðum fyrirtækisins nemur um 175 milljónum dala. „Ég hef alltaf trúað því að menntun sé lykillinn að tækifærum; hún hopnar dyr og býr til nýja möguleika,“ hefur Wall Street Journal eftir forstjóra Disney, Robert Iger.

1.000 dala bónusinn verður greiddur út í tveimur greiðsum. Fyrri greiðslan mun eiga sér stað í mars en sú seinni í september.