Grein Ingibjargar Kristjánsdóttur, eiginkonu Ólafs Ólafssonar sem dæmdur var til fangelsisvistar í Al-Thani málinu, þar sem hún hélt því fram að í dómi Hæstaréttar hefði Ólafi verið ruglað saman við lögfræðing með sama nafni hefur víða vakið athygli. Sé svo að sakfelling hans hafi verið byggð á misskilningi gæti hann átt rétt á endurupptöku málsins. Þórólfur Jónsson, lögmaður Ólafs, hefur áður sagt að hugsanlega sé hægt að krefjast endurupptöku málsins á þessum grundvelli, en slík beiðni kæmi þá til kasta endurupptökunefndar sem skipuð er þremur aðalmönnum og þremur varamönnum.

Viðskiptablaðið kannaði tengsl nefndarmanna endurupptökunefndar við persónur og leikendur í málinu, en athugun blaðsins sýnir að nær allir nefndarmenn, fyrir utan einn, eru tengdir dómurum eða sækjendum málsins á einn eða annan hátt. Um hæfi nefndarmanna endurupptökunefndar gilda hæfisreglur sakamálalaga, sem eru strangari en sambærilegar reglur stjórnsýslulaganna. Erfitt er að segja til um það á þessu stigi hvort tengsl þau sem hér eru rakin séu þess eðlis að leiða eigi til þess að nefndarmenn stígi til hliðar, en fordæmi eru fyrir því að dómarar víki t.d. sæti vegna tengsla málsaðila við maka þeirra í starfi.

Formaðurinn vann hjá sérstökum

Björn L. Bergsson hæstaréttarlögmaður var tilnefndur til setu í nefndinni af Hæstarétti Íslands og er formaður hennar. Hann var settur ríkissaksóknari í öllum málum sem heyrðu undir sérstakan saksóknara frá 8. ágúst 2009 til 1. janúar 2011. Félög í hans eigu, Ránargata 18 slf. og Mandat slf., fengu samtals greiddar 834 þúsund krónur vegna ráðgjafar fyrir sérstakan saksóknara frá 2012 til 2013.

Kristbjörg Stephensen hæstaréttarlögmaður er varamaður Björns. Hún var skólasystir Bjargar Thorarensen, eiginkonu Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara, við laganám þeirra í Háskóla Íslands, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa þær verið nánar vinkonur síðan og eru saman í saumaklúbbi. Markús hefur sjálfur lýst sig vanhæfan í máli þar sem málsaðili var tengdur eiginkonu hans í gegnum starf hennar hjá háskólanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .