Auglýsingastofan Brandenburg hefur verið valin til að sjá um heildstæða kynningarherferð sem snýr að því að auka verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Heildar fjárheimild til verkefnisins eru 90 milljónir og sá Ríkiskaup, fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, um útboðið.

Alls bárust tilboð frá sex félögum en Brandenburg fékk 99,8 stig af 100 mögulegum. Þar næst kom auglýsingastofan Sahara með 87,1 stig og síðan Pipar Media með 83,9 stig.

„Við erum auðvitað hæst ánægð að vera treyst fyrir verkefninu og full tilhlökkunar að takast á við það. Við sjáum fram á að vera fjórar vikur að verkefninu og hefjumst handa 8. september,“ segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenbur, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Að þessu verkefni koma ansi margir en bara hér á stofunni verður þetta um 6-7 manna hópur. Svo koma margir framleiðsluaðilar að þessu sem munu koma til með að gera til dæmis sjónvarpsauglýsingu og taka ljósmyndir,“ segir Ragnar en um rúmlega 30 starfsmenn starfa hjá Brandenburg.

Herferðahugmyndin vegur þyngst

Sá matsþáttur sem vegur hvað mest er herferðahugmyndin, eða 30 stig. Þar er litið til styrkleika og gæða hugmyndarinnar, það er að segja hversu líkleg hún er til að ná markmiði átaksins. Stefnumörkun og rökstuðningur vegur 15 stig, það er að segja hve vel stefnumörkun verkefnisins er leyst. Skilaboð hugmyndarinnar vega einnig 15 stig og snýr að því hve skýr og sterk skilaboð herferðarinnar eru.

Útfærsla hugmyndarinnar vegur einnig 15 stig en aðrir þættir eru birtingastefna, eldri verkefni bjóðenda og verð. Ríkiskaup, fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sá um útboðið sem auglýst var fyrr í sumar.