*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 1. nóvember 2019 14:39

Nær helmingur nýorkubílar

Nýorkubílar voru 43% af sölu nýrra fólksbíla í október en ríflega fjórðungur af heildarsölu ársins.

Ritstjórn
Hleðslustövum fjölgar jafnt og þétt enda er nálega helmingur allra seldra fólksbíla nýorkubílar.
Haraldur Guðjónsson

„Sala á nýorkubílum (rafmagn, tengiltvinn, vetni, metan og hybrid) hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum í hlutfalli við bíla knúna jarðefnaeldsneyti, og sérstaklega núna á seinni hluta þessa árs.“ 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í  fréttatilkynningu sem Bílgreinasambandið sendi frá sér í morgun. Eftir mikinn samdrátt í skráningum nýrra fólksbíla upp á tæp 36% það sem af er ári þá er jákvæð merki séu um að bílasala sé almennt að aukast aftur, að mati Bílgreinasambandsins. Þannig sé samdrátturinn í október 18% miðað við sama mánuð í fyrra. 

„Hvað varðar skráningar nýorkubíla þá erum við töluvert langt á undan Evrópu. Ef við horfum á árið 2018 þá voru 6,9% nýskráðra fólksbíla á EES svæðinu nýorkubílar samanborið við 16% hér á landi. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru 9,5% nýskráðra fólksbíla á EES svæðinu nýorkubílar samanborið við 22,7% hér á landi. Í október einum voru nýorkubílar 43% af sölu mánaðarins á Íslandi. Nýorkubílar eru því samtals 26,6% af heildarsölu ársins.“

Þá segir í tilkynningunni að Bílgreinasambandið hafi haldið því að ekki megi gera lítið úr almennri endurnýjun á bílaflotanum þótt enn séu það nýir bensín- og dísilbílar sem komi á götuna fyrir eldri slíka bíla. „Þróunin hefur einfaldlega verið þannig á síðustu árum að þeir bílar eru farnir að menga mun minna en þeir gerðu áður og endurnýjun þeirra telur því umtalsvert í vegferð okkar í að minnka mengun og ná loftslagsmarkmiðum.“