Næstum því þrír fjórðu hlutar aðspurðra í nýrri könnun mmr kváðust andvígir sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en hlutfall þeirra sem kváðust andvígir sölu á léttu áfengi og bjór er nokkuð lægra eða 56,9%.

Kváðust einungis 15,4% aðspurðra vera hlynntir sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum, en 32,7% kváðust hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór.

Þótt eldra fólk væri ólíklegra til að vilja sölu áfengis í matvöruverslunum var allt að helmingur þeirra yngstu einnig á móti því. Vinstri grænir voru andvígastir meðan stuðningsmenn Pírata, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar voru líklegastir til að vera hlynntir sölunni.

Spurning MMR gekk út á það hversu hlynnt eða andvígt aðspurðir væru að selja þessa mismunandi flokka áfengis, og voru valkostirnir mjög hlynntur, frekar hlynntur, hvorki né, frekar andvígur og mjög andvígur.

Ekki afstaða til fyrirliggjandi frumvarps

Ekki var spurt út í afstöðu fólks til fyrirliggjandi frumvarps til Alþingis sem ekki gerir ráð fyrir að áfengi verði skippt upp í flokka milli sterks áfengis og létts líkt og sum fyrri frumvarpa.

Frumvarpið gerir heldur ráð fyrir að sveitarfélögum sé eftirlátið að ákveða upp að ákveðnu marki fyrirkomulag áfengissölu í sínu sveitarfélagi við afnám einkasölu ríkisins á áfengi.

Þá sérstaklega hvort um verði að ræða krafa um sérverslanir eða einungis sérstök rými í verslunum sem hægt verði að loka af utan leyfilegs sölutíma, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Konur andvígari en karlar

Töluverður munur var á afstöðu fólks eftir kynjum, en 70% kvenna voru mjög andvígir sölu sterks áfengis í matvöruverslunum en hlutfall karla sem voru því andvígir var töluvert lægra eða 58%.

Hlutfall kvenna sem var mjög hlynnt því var 5% en karla með sömu skoðun var 14%. Hlutfallið var minna þegar kom að léttu áfengi og bjór en þá sögðust 50% kvenna vera andvíg sölu þess í matvöruverslunum en 43% karla. Sögðust 28% karla vera mjög hlynntir þvi en 13% kvenna.

Nálægt helmingur ungs fólks á móti

Jafnframt jókst hlutfall þeirra sem voru andvígir sölu sterks áfengis eftir aldri. en 81% þeirra sem voru 68 ára og eldri voru því andvígir. Jafnframt var tæplega helmingur þeirra sem eru á aldursbilinu 18-29 ára á móti því eða 46%.

Einnig átti það við um sölu á léttu áfengi og bjór en 61% þeirra sem voru í elsta aldurshópnum var á móti sölu á því í matvöruverslunum en hlutfallið var 42% meðal 18-29 ára.

Stuðningsmenn VG og Pírata á öndverðum meiði

Líkt og með þá elstu gilti svipað með stuðningsmenn Vinstri grænna, þeir voru mun líklegri, eða 89%, en stuðningsmenn Pírata sem voru ólíklegastir til að vera á móti sölu á sterku áfengi eða 55%, meðan stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar voru álíka margir á móti því eða 65%.

Þar af voru Sjálfstæðismenn líklegri til að vera mjög á móti því. Stuðningsmenn Viðreysnar reyndust líklegastir til að vera hlynntir sölu létts áfengis og bjórs í matvöruverslunum eða 58% þeirra, sama hlutfall hjá stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar reyndist 49% og 48% hjá stuðningsmönnum Pírata.

Sama hlutfall var einungis 19% hjá stuðningsmönnum Vinstri grænna.