Grænt var yfir kauphöllinni í viðskiptum dagsins. Alls hækkuðu hlutabréf fimmtán fyrirtækja af þeim nítján sem skráð eru í kauphöll Nasdaq á Íslandi, þar af hækkuðu hlutabréf átta félaga um prósentustig eða meira. Heildarvelta nam 3,7 milljörðum í um 470 viðskiptum. Úrvalsvísitalan stendur í tæplega 2.350 stigum.

Mest hækkuðu hlutabréf Eimskips í 147 milljóna króna veltu eða um 5,3%. Bréf fyrirtækisins standa í 200 krónum hvert og hafa þau ekki verið jafn verðmæt síðan í febrúar á síðasta ári. Næst mest hækkuðu hlutabréf Icelandair eða um 4,6% í 942 milljóna króna veltu. Bréf flugfélagsins standa í 1,36 krónum.

Sjá einnig: Bóluefni Moderna sýnir 95% virkni

Þriðja mest velta var á bréfum Arion banka um 3,7% í 480 milljóna króna veltu. Bréf bankans standa í um 87 krónum. Ef síðasta vika er undanskilin hafa þau ekki verið jafn verðmæt síðan í febrúar á þessu ári, þar á undan í september árið 2018. Hlutabréf Arion banka voru skráð í kauphöllina um mitt ár 2018.

Hlutabréf fasteignafélaganna hækkuðu. Mest hækkuðu bréf Regins um þrjú prósent. Bréf Reita hækkuðu um tæplega prósentustig og bréf Eikar um 0,7%. Mest lækkuðu bréf Símans eða um 0,5%.

Íslenska krónan styrkist eilítið gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum, að norsku og sænsku krónunni undanskildum. Mest styrktist krónan gagnvart Bandaríkjadal, um 0,23% sem fæst á 137 krónur. Evran fæst á 162 krónur og breska pundið á 180 krónur.