*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 29. júlí 2020 16:40

Nær öll félög Kauphallarinnar lækkuðu

Síminn var eina félagið sem hækkaði í viðskiptum dagsins en gengi fjarskiptafélagsins hefur hækkað um 5% í mánuðinum.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan lækkaði um tæp 2% í 1,4 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag en gengi 17 af 20 félögum hennar lækkuðu í viðskiptum dagsins. 

Marel lækkaði um 2,8% í 138 milljóna veltu og standa bréf fyrirtækisins í 720 krónum á hlut. Mesta veltan var með bréf Kviku banka sem lækkuðu um rúmlega eitt prósent í 201 milljón króna viðskiptum. 

Síminn var eina félagið sem hækkaði en gengi fjarskiptafélagsins hækkaði um 0,16% í 144 milljóna veltu. Hlutabréf símans hafa hækkað um meira en 5% frá upphafi mánaðar. 

Tryggingafélögin þrjú lækkuðu öll. Af þeim lækkaði TM mest eða um 1,5% í 170 milljóna viðskiptum. VÍS lækkaði um 1,3% í 111 milljóna veltu og Sjóvá um 0,7% í 38 milljóna viðskiptum. 

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin