Af 75 sveitarfélögum leggja 67 sveitafélög hámarksútsvar á íbúa sína á næsta ári. Hámarksútsvar er 14,48%. Þá nýtir eitt sveitafélag, Álftanes, sérstakt 3% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 14,91%.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins þar sem birtur er listi yfir útsvarshlutföll sveitafélaga á næsta ári.

Sveitarfélögin geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,48%. Aðeins tvö sveitafélög leggja á lágmarksútsvar en það eru Skorradalshreppur og Ásahreppur.

Athygli vekur að aðeins eitt sveitafélag á landinu lækkar útsvarshlutfall sitt á milli ára. Það er Hvalfjarðarsveit sem lækkar útsvarshlutfall sitt úr 14,23% í 13,64% eða um 0,59 prósentustig. Til upplýsinga má taka fram að Hvalfjarðarsveit var lengi vel í hópi þeirra sveitafélaga sem innheimtu lágmarksútsvar ásamt Skorradalshrepp og Ásahrepp.

Þá eru tvö sveitafélög sem hækka útsvars sitt á milli ára, Reykjavíkurborg og Grímsnes- og Grafningshreppur. Reykjavíkurborg hækkar útsvarshlutfall sitt úr 14,4% í 14,48% eða um 0,08 prósentustig og Grímsnes- og Grafningshreppur hækkar útsvarið úr 13,94% í 14,48% eða um 0,54 prósentustig.

Fyrir utan Skorradals og Ásahrepp verður útsvarið lægst í Fljótsdalshrepp, eða 13,2%. Þá verður útsvarið sem fyrr segir 13,64% í Hvalfjarðarsveit, 13,66% í Garðabæ, 13,73% í Kjósarhrepp, 14,05% í Tjörneshrepp og 14,18% á Seltjarnarnesi.

Öll önnur sveitafélög innheimta hámarksútsvar, 14,48%. Þau eru í stafrófsröð; Akrahreppur, Akraneskaupstaður, Akureyrarkaupstaður, Árneshreppur, Bláskógabyggð, Blönduósbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Bæjarhreppur, Dalabyggð, Dalvíkurbyggð, Djúpavogshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð, Fljótsdalshérað, Flóahreppur, Grindavíkurbær, Grímsnes- og Grafningshreppur, Grundarfjarðarbær, Grýtubakkahreppur, Hafnarfjarðarkaupstaður, Helgafellssveit, Hrunamannahreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Hveragerðisbær, Hörgársveit, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Kópavogsbær, Langanesbyggð, Mosfellsbær, Mýrdalshreppur, Norðurþing, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Reykhólahreppur, Reykjanesbær, Reykjavíkurborg, Sandgerðisbær, Seyðisfjarðarkaupstaður, Skaftárhreppur, Skagabyggð, Skeiða-og Gnúpverjahreppur., Skútustaðahreppur, Snæfellsbær, Strandabyggð, Stykkishólmsbær, Súðavíkurhreppur, Svalbarðshreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Sveitarfélagið Álftanes, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Vogar, Sveitarfélagið Ölfus, Tálknafjarðarhreppur, Vestmannaeyjabær, Vesturbyggð, Vopnafjarðarhreppur og Þingeyjarsveit.

Þá er rétt að taka fram að Bæjarhreppur og Húnaþing vestra mun sameinast árið 2012 en bæði þessi sveitafélög innheimta í dag hámarksútsvar.

© MATS LUND (© MATS WIBE LUND)

Þrátt fyrir að vera eitt best stæða sveitafélag landsins innheimtir Vestmannaeyjabær hámarksútsvar, 14,48%.