*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 14. september 2019 16:02

Nær óstarfhæf í rúmt ár

Eftirlitsnefnd með framkvæmd sáttar Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins skorti gögn til að geta sinnt eftirliti sínu.

Jóhann Óli Eiðsson
Eva Björk Ægisdóttir

Rúmlega ár leið frá því að eftirlitsnefnd um framkvæmd sáttar milli Íslandspósts ohf. (ÍSP) og Samkeppniseftirlitsins (SKE) var skipuð og þar til hún gat byrjað að sinna eftirliti sínu af fullum krafti. Ástæðan er sú að ekki lágu fyrir nægilegar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins til að nefndin gæti tekið afstöðu til mála sem komu inn á borð hennar.

Í febrúar 2017 gerðu ÍSP og SKE sátt sín á milli. Í sáttinni fólst meðal annars að tekið var fyrir að ÍSP veitti dótturfélögum sínum lán sem ekki báru vexti, kveðið var á um að ákveðin dótturfélög skyldu rekin sem aðskildar einingar og settar fram skilgreiningar á skilyrðum til að víxlniðurgreiðslur á rekstri í samkeppni teldust óheimilar.

Með sáttinni var komið á fót áðurgreindri nefnd til að fylgjast með hvort ÍSP uppfyllti skilyrði samkomulagsins. Viðskiptablaðið fékk nýverið fundargerðir nefndarinnar afhentar. Upphaflega höfnuðu ÍSP og nefndin að afhenda þær en fékk aðgang að gögnunum eftir að hafa leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Fyrsti fundur nefndarinnar fór fram í júlí 2017 og þriðji fundur hennar rúmlega hálfu ári síðar. Á þeim fundi var lögð fram greining ÍSP á fjárhagslegum þáttum í rekstri félagsins. Í fundargerð er haft eftir Sigrúnu Traustadóttur að „óheppilegt [væri að nefndin hefði] ekki tilfinningu fyrir öllum fjárhagslegum þáttum í rekstri ÍSP og erfitt væri fyrir nefndina að sinna hlutverki sínu fyllilega á meðan svo væri“.

Verkfæri skorti

Lítið gerðist á næstu fundum nefndarinnar þar sem beðið var eftir frekari gögnum frá ÍSP auk greiningar frá KPMG. Á fundi í mars 2018 er haft eftir Sigrúnu Traustadóttur, og tóku aðrir nefndarmenn undir þá ályktun, að nefndin „væri í raun ekki enn komin með þau verkfæri sem hún þyrfti til að sinna störfum sínum“. Á fundi nefndarinnar í upphafi þessa árs var síðan færð til bókar athugasemd um að fyrirliggjandi upplýsingar, sem nefndinni höfðu verið sendar frá ÍSP, væru ekki nýlegar og að upplýsingaflæði þyrfti að vera betra.

Greining KPMG lá fyrir á vormánuðum og sköpuðust nokkrar umræður á fundum nefndarinnar um hana og meðfylgjandi minnisblað. Á fundi í september 2018 var enn beðið eftir uppfærðu eða leiðréttu minnisblaði KMPG og því enn erfitt fyrir nefndina að sinna starfi sínu. Virðist vinnu KPMG ekki hafa lokið fyrr en í október 2018. Á einum stað í fundargerðunum segir Tryggvi Þorsteinsson, þáverandi fulltrúi ÍSP í nefndinni, að svo virðist sem KPMG hafi lagt í meiri vinnu en óskað var eftir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.