Farsímanet Símans nær nú til 98% landsmanna. Tugir nýrra senda hafa verið settir upp á árinu og hefur uppbyggingin leitt af sér meiri hraða á farsímanetinu en áður var þrátt fyrir 100% aukningu gagnanotkunar milli ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum.

„Afkastageta sendanna eykst stöðugt og höfum við gangsett senda sem styðja allt að 300 Mb/s í miðbæ Reykjavíkur, á Akureyri  og í Grímsnesi,“ segir Eric Figueras, framkvæmdastjóri tækni og þjónustu hjá Símanum.

Nýir sendar standa til að mynda á Hellissandi, Rifi, Bíldudal, Suðureyri, Laufási í Eyjafirði og Kröflusvæðinu. Þá vinnur Síminn stöðugt að því að þétta netið og hefur styrkt það í Reykjanesbæ, Ásbrú og tjaldsvæðinu Hamri á Akureyri svo dæmi séu nefnd.

„Við höfum þétt netið okkar til þess að bregðast við aukinni notkun og viðhalda gæðunum í kerfinu. Við erum stolt af árangrinum og hraðaaukningunni,“ bætir Eric við.