Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur ohf. hefur undanfarin tvö ár lánað dótturfélagi sínu, ePósti ehf., sem nemur 310 millj­ ónum króna, en ePóstur starfar á almennum samkeppnismarkaði. Í fyrra greiddi ePóstur tæpar 2.700 krónur í vexti af lánum sínum. Nýlegur ársreikningur ePósts, sem er félag í þróun og rekstri á sviði rafrænna póstsendinga, sýnir að fyrirtækið tapaði 30 milljónum króna árið 2015. Þá nam tap ársins þar á undan 80 milljónum króna.

Af lestri ársreikningsins er ljóst að Íslandspóstur lánaði dótturfélagi sínu umtalsverðar fjárhæðir undanfarin tvö ár en rekstrarerfiðleikar hafa einkennt starfsemi ePósts frá því að fyrirtækið var stofnað árið 2012. Af ársreikningum að dæma virðist fyrirtækið ekki rekstrarhæft ef ekki væri fyrir lánveitingarnar en sem dæmi má nefna að handbært fé félagsins var uppurið í lok árs 2013 og ársreikningur ársins 2015 sýnir að eigið fé fyrirtækisins er neikvætt sem nemur 200 milljónum króna.

Rekinn á yfirdráttarlánum

Íslandspóstur fer með einkarétt íslenska ríkisins í dreifingu almennra bréfa undir 50 gr. ásamt uppsetningu, reksturs póstkassa og útgáfu frímerkja. Hvað alla aðra póstþjónustu varð­ ar er Íslandspóstur hins vegar í samkeppni við aðra aðila á markaðnum. Samkvæmt lögum er Íslandspósti óheimilt að nýta tekjur af einkaréttarþjónustunni til að greiða niður þjónustu í samkeppnisrekstri. Erfitt er að sjá úr reikningum fyrirtækjanna tveggja hvernig lánum móðurfélagsins til ePósts er háttað. Keppinautar Íslandspósts haldi því fram að fyrirtækið hafi nýtt fjármagn frá einkaréttinum til að lána ePósti fé.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.