Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam heildareldsneytissala, það er á bensín og dísil, hér á landi rúmlega 74 þúsund rúmmetrum, sem er 9,6% minna en á sama tíma árið 2019 þegar seld voru 82 þúsund rúmmetrar.

Þrátt fyrir það virðist sem ferðalög Íslendinga á tímabilinu hafi verið sambærileg við árið 2019 að því er Hagstofa Íslands greinir frá á vef sínum því stærsti hluti minnkunarinnar kemur til vegna minnkandi notkun ferðamanna.

Rúmmál eldsneytis, sem afgreitt var á erlend greiðslukort, var nefnilega 0,7 þúsund rúmmetrar árið 2020 en var 7,6 þúsund rúmmetrar árið 2019 eða ellefu sinnum meira. Sala utan erlendra greiðslukorta var því aðeins um 1,5% minna árið 2020 miðað við 2019.