*

sunnudagur, 5. júlí 2020
Innlent 18. febrúar 2020 09:37

Nærri 12% aukning hagnaðar hjá Reitum

Hagnaður Reita, með matsbreytingu fasteigna, nam 965 milljónum á fjórða ársfjórðungi. Margföldun hagnaðar yfir árið.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Reita á fjórða ársfjórðungi 2019 jókst um 11,8% milli ára, úr 863 milljónum króna í 965 milljónir króna, en inn í því er matsbreyting fjárfestingareigna sem jókst um 86,5% milli ára, úr 192 milljónum í 358 milljónir króna.

Leigutekjur félagsins drógust hins vegar eilítið saman milli ára á fjórða ársfjórðungi, eða úr 2.966 milljónum króna í 2.956 milljónir króna, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 4,5%, úr 157 milljónum króna í 150 milljónir.

Þar með dróst rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu eilítið saman eða um 6,3%, úr rúmlega 2 milljörðum í 1,9 milljarða, meðan alger viðsnúningur var í rekstrarhagnaði að teknu tilliti til matsbreytinga, eða úr því að vera 1,8 milljarða tap í tæplega 2,3 milljarða króna hagnað.

Í lok ársins 2019 hafði eigið fé félagsins aukist um 1,6% frá upphafi þess, og nam það 47,6 milljörðum króna, meðan skuldirnar höfðu aukist um 7,5%, úr 96,8 milljörðum í 104 milljarða tæplega. Þar með höfðu eignir félagsins aukist um 5,5%, úr 143,7 milljónum króna í 151,6 milljónir króna, en eiginfjárhlutfallið lækkað úr 32,6% í 31,4%.

Margföldun hagnaðar milli ára

Reitir högnuðust um 3,3 milljarða króna á síðasta ári, sem er mikil breyting frá árinu áður þegar hagnaðurinn var 110 milljónir króna. Þá hefur verið tekið tillit til matsbreytingar fjárfestingareigna félagsins sem fjárfestir í atvinnuhúsnæði, en hún var neikvæð árið 2018 um 3,1 milljarð króna en jákvæð í fyrra um ríflega 2,3 milljarða króna.

Rekstrarhagnaður ársins fyrir matsbreytingu stóð hins vegar nánast í stað, jókst um tæplega 1%, úr 7,6 milljörðum í tæplega 7,7 milljarða króna. Tekjur félagsins jukust um 2,6% milli ára, úr 11,4 milljörðum í 11,7 milljarða króna, en rekstrargjöldin jukust um 9%, úr 3,8 milljörðum í tæplega 4,1 milljarð.

Félagið áætlar að tekjur ársins 2020 verði á bilinu 11,5 til 11,65 milljarðar króna og að rekstrarhagnaður fyrir matsbretingu verði á bilinu 7,6 til 7,75 milljarðar. Félagið býst við því að breytt fasteignagjöld skili sér til félagsins á árinu.

Guðjón Auðunsson forstjóri Reita segir reksturinn hafa verið ágætan á árinu þrátt fyrir mótbyr í efnahagslífinu.

„Félagið naut góðs af lækkandi vöxtum og endurfjármagnaði eldri lán með nýrri skuldabréfaútgáfu fyrir rúma 10 milljarða króna. Stærstu verkefni ársins fólust í aðlögun núverandi húsnæðis í eignasafni Reita að breyttum þörfum langtímaviðskiptavina.

Um mitt ár 2019 fékk Landspítalinn afhent endurnýjað húsnæði að Skaftahlíð 24. Þar er um að ræða um 5.000 fermetra í tveimur byggingum. Húsnæðið var klæðskerasniðið að starfsemi höfuðstöðva spítalans sem áður voru staðsettar í annarri byggingu Reita, Eiríksgötu 5, en sú bygging fær senn nýtt hlutverk eftir gagngerar endurbætur sem ráðist verður í á árinu 2020. Sjúkraþjálfun Íslands, sem hafði verið með aðsetur í Orkuhúsinu um árabil, opnaði á árinu nýja starfsstöð á þriðju hæð í Kringlunni og fékk þar endurnýjað húsnæði sérsniðið að sínum þörfum. Á dögunum var tilkynnt um fyrirhugaða opnun nýrrar World Class stöðvar í Kringlunni haustið 2020.

Undir lok árs voru tilkynnt áform um að breyta Laugavegi 176, Gamla sjónvarpshúsinu, í nýtt Hyatt Centric hótel. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á reitnum í ársbyrjun 2021 og að hótelið opni árið 2022. Undirbúningur þróunar á Orkureit, Kringlusvæðinu og í landi Blikastaða í Mosfellsbæ gengur vel en nánar er fjallað um þróunarverkefnin í ársskýrslu Reita [...].“